Kanínur eru frábær gæludýr og miklar félagsverur.

Hér eru nokkur atriði sem við höfum lært undanfarna daga og langar að deila áfram.

1

Kanínur hafa nánast 360° sýn. Þær geta numið hreyfingu úr öllum áttum án þess að hreyfa höfuðið og geta meira að segja séð upp fyrir höfuðið á sér. Þær sjá vel það sem er langt frá þeim en verr það sem er nálægt þeim. Þær skynja hreyfingu sérstaklega vel og eru varar um sig. Í náttúrunni eru þær snillingar í að skynja rándýr og felast enda hafa þær fáar leiðir til að verjast rándýrunum. Kanínur eru mjög ljósnæmar og blindast í of mikilli birtu.

2

Kanínur eru litblindar en þó er almennt talið að þær geti séð rauðan og grænan.

3

Hins vegar er stærsti blindi bletturinn þeirra beint fyrir framan nefið á þeim þannig að þær sjá til dæmis ekki fóðrið sem þær eru að éta. Þær treysta alfarið á lykt og þreifa eftir matnum sínum. Kanínur eru plöntuætur eins og allir vita. Villtar kanínur borða að mestu gras en einnig lauf, greinar og trjábörk. Kanínur hafa mjög sérstaka og viðkvæma meltingu og þurfa því sérhæft fóður. Ef við ætlum að gera það allra besta fyrri kanínuna okkar þá á 80% fæðunnar að vera gras eða hey (þurrkað gras) hin 20% ættu að vera hæfileg blanda ferskt grænmeti og kanínufóður.

4

Villtar kanínur búa á stóru svæði. Yfirráðasvæði þeirra samsvarar 30 tennisvöllum. Útfrá því er ágætt að hugsa íverustað heimiliskanína og aðstæðurnar sem við bjóðum þeim upp á. Til að viðhalda heilbrigði þeirra svo sem: vöðvamassa, heilbrigðu hjarta, koma í veg fyrir ofþyngd, tryggja að hryggstaða þeirra haldist rétt, koma í veg fyrir beinþynningu er mjög mikilvægt að þær fái pláss til að hreyfa sig á hverjum degi. Mikilvægasti þáttur í geðheilsu þeirra er pláss og tími til að hreyfa sig og að fá aðra andlega örvun. Kanínur þurf að uppfylla þessa eðlislægu þörf fyrir hreyfingu og kanínur þurfa að fá að vera kanínur.

5

Hafandi sagt það þá er athyglisvert að kanínur eru mikið í kyrrstöðu, en þær eyða að meðaltali 6-8 klst á dag við að éta og þær tyggja að meðaltali 120 sinnum á mínútu.

6

Tennurnar í kanínum hætta aldrei að vaxa og þær geta vaxið allt að 1 cm á mánuði. Til að viðhalda tönnunum og slíta þeim í rétta stærð og lögun þurfa þeir aðgang að miklu heyi og grasi. Tennurnar eru kanínum mjög mikilvægar þær nota þær ekki bara til að éta heldur einnig til að tjá pirring, ánægju og sársauka, breyta og umraða í umhverfinu sínu, snyrta sig og félaga sína, rannsaka nýtt umhverfi og merkja sér svæði. Tannheilsa kanínunnar þinnar er því afar mikilvæg og þú ættir að venja þig á að skoða höfuð hennar og munn á nokkurra vikna fresti, byrjaðu að meðhöndla hana unga og venja hana við þessari skoðun. Hafðu kanínuna í fanginu á þér, með höfuðið frá þér, strjúktu í kringum munn hennar og undir kjálkana ákveðið með smá þrýsting. Lærðu þannig að þekkja hvernig höfuðlag hennar er (þá þekkirðu frekar ef það eru bólgur eða eitthvað óeðlilegt í munnholinu), kanína sem er vön þessari meðferð nýtur hennar svo lengi sem allt er í lagi, ef þú verður vör við að hún kippist til þegar þú strýkur ákveðinn stað ætti það að vera merki um sársauka eða óþægindi sem þarf þá að skoða nánar. Biddu dýralækni þinn eða ræktanda kanínunnar að sýna þér fleiri aðferðir við að skoða og þekkja kanínuna þína og greina vandamál. Mundu að kanínur geta illa tjáð sig ólíkt mörgum öðrum gæludýrum og ef þær veikjast draga þær sig oft í hlé og erfitt er að greina vandamálið nema þekkja dýrið sitt vel.

7

Kanínur geta heyrt úr tveimur mismunandi áttum. Eyru þeirra geta hreyfst óháð hvort öðru. Þær heyra afar vel og geta greint hljóð úr ríflega 3 km fjarlægð. Kanínur heyra lágtíðni hljóð sem við heyrum ekki, t.d. hljóð úr smádýrum, skordýrum og jafnvel hljóð sem við heyrum ekki úr rafmagnstækjum. Lesa má líðan kanína á eyrum þeirra, stressuð kanína er með eyrun upp og er að hlusta eftir hættu, liggjandi kanína með slaka vöðva og eyrun aftur er slök og treystir umhverfi sínu, kanína sem er samanherpt í kúlu með eyrun aftur er að fela sig frá hættu.  Kanínur nota einnig lengdina á eyrunum til að hjálpa sér við að stjórna líkamshita sínum.

 

Við vonum að þessi grein reynist ykkur gagnleg en hún er samantekt úr nokkrum greinum sem við fundum á ensku á netinu.

 

vetis ehf

 

Kennitala: 6602023660
Hvaleyrarbraut 24 (Ekið inn frá Lónsbraut)
220 Hafnarfjörður
Ísland

Sími / Tel: +354 421 8005
Farsími / Mobile: +354 651 8005
Tölvupóstur / E-mail: lager(hja)vet.is

upplýsingar

facebook